Menntaskólinn Hraðbraut

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Fréttir

Hraðbraut tekur til starfa á ný

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Menntaskólinn Hraðbraut tekur til starfa á ný!

Stúdentspróf á tveimur árum verður í boði á ný. Námið verður byggt á nýrri aðalnámskrá. Nám nemenda sem hafa lokið hluta náms í framhaldsskóla í samræmi við eldri námskrá verður þó metið í skólann.

Menntaskólinn Hraðbraut tekur til starfa næsta haust. Umsóknarfrestur er til 11. júní nk. Þeir sem hafa áhuga á að sækja um geta gert það hér eða á hlekkinn Umsókn um skólavist í valmyndinni hér til hliðar. Umsóknarferlið i Hraðbraut er aðskilið umsóknarferli í aðra framhaldsskóla og því geta þeir sem sækja um skólavist í Hraðbraut gert það þótt þeir sæki um skólavist í aðra skóla. Stjórnendur annarra skóla fá ekki vitneskju um umsóknir í Hraðbraut.

Allir sem sækja um skólavist verða boðaðir í viðtal í skólanum á tímabilinu 12. maí til 10. júní. Skólinn verður lokaður til 12. maí en verður opinn alla virka daga eftir það frá 9.00-12.00 og frá 14.00-16.00. Þeir sem vilja kynna sér námið í skólanum geta farið á heimasíðu skólans. Vakni einhverjar spurningar má senda tölvupóst á netfangið Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. . Öllum spurningum verður svarað.

Menntaskólinn Hraðbraut verður rekinn án fjárstuðnings ríkisins en ráðherra hefur hafnað því að gera þjónustusamning við skólann vegna fjárhags ríkissjóðs. Ekki er hægt að bíða með að hefja skólastarf þar til fjárhagur ríkisins batnar enda er áhuginn á skólanum mikill. Það þýðir að skólagjöld verða að standa undir rekstri skólans. Skólagjöld hækka því mikið og verða kr. 890.000 á hverju skólaári (tvær annir). Það er engu að síður mun lægri kostnaður á hvern „ársnema“ en í nokkrum öðrum framhaldsskóla á Íslandi. Fjárhagslegur ávinningur nemenda af því að ljúka háskólanámi fyrr en kostur er á öðrum skólum er mikill, miklu meiri en nemur skólagjöldunum.

Beiðni um viðurkenningu skólans bíður afgreiðslu hjá mennta- og menningarmálaráðherra. Hann hefur staðfest að skoðun hafi farið fram og beiðnin sé í samræmi við lög 92/2008 og reglugerð 426/2010. Skólinn fær því væntanlega viðurkenningu næstu daga.

 

Nýr ráðherra mennta- og menningarmála

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Nýr ráðherra mennta- og menningarmála.

Í dag tekur Illugi Gunnarsson við mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Menntaskólinn Hraðbraut býður hann velkominn til starfa og óskar honum gæfu og blessunar við vandsöm verk.

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

Nú er framfara þörf í framhaldsskólum!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Neðangreind grein eftir Ólaf Hauk Johnson skólastjóra Hraðbrautar birtist í Morgunblaðinu í dag, 23. maí 2013.

Nú er framfara þörf í framhaldsskólum!

Mikil umræða fer nú fram um nauðsyn þess að auka framleiðni á Íslandi í kjölfar nýlegra tillagna frá „samráðsvettvangi um aukna hagsæld.“ Ljóst er að staðan er þröng og við þurfum öll að skoða hvernig við getum lagt okkar að mörkum til að bæta hag þjóðarinnar.

Rekstur framhaldsskóla þekki ég vel. Tel ég að þar hafi verið dapurlega staðið að málum síðustu ár og einstök tækifæri til að bæta íslenska skólakerfið hafi ekki verið nýtt. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að stór skref hafi verið stigin afturábak bæði með aðgerðum og ekki síður með aðgerðaleysi.

Vandinn er víða. Meðal námstími til útskriftar í íslenskum framhaldsskólum er 5,5 ár. Það eru óviðunandi námsafköst. Tölur Hagstofu Íslands um brottfall nemenda í framhaldsskólum sýna að fjöldi þeirra sem ljúka skólanum á fjórum árum eða skemmri tíma er einungis 44% af hverjum árgangi. Það er einnig óviðunandi. Vafalítið má að hluta til kenna agaleysi nemendanna sjálfra og aðstandenda þeirra um þetta. Hitt er þó jafn líkleg skýring á þessu að skólakerfið býður ekki lausnir sem henta stórum hluta ungs fólks. Tölurnar tala skýru máli; engin leið er að mótmæla þeim. Breytinga er þörf. Ná verður fram aukinni skilvirkni í skólakerfinu, bæði hvað varðar námsframvindu nemenda og hagkvæmni skólanna. Við úrlausn málsins verður að skapa aðstæður sem tryggja vilja til framfara með hag nemenda og þjóðar að leiðarljósi. Andstaða við breytingar má ekki drepa málið.

En hvers vegna er framhaldsskólakerfið ekki skilvirkara?

Flestir framhaldsskólar landsins eru reknir af ríkinu. Við þá skóla starfa stjórnendur og kennarar sem ekki hafa persónulega hag af árangri nemenda og skilvirkni í rekstrinum. Ekki hvarflar þó að mér að halda því fram að þar séu allir áhugalausir um skólastarfið. Svo er auðvitað alls ekki en hinu er þó ekki að neita að ansi oft ríkir innan skólanna áhugaleysi um nauðsynlegar breytingar. Framþróun er því jafnvel stöðvuð með orðum um „að ekki er greitt sérstaklega fyrir vinnu við þau verk.“ Slík viðhorf heyrast vart í einkafélögum enda er öllum þar ljóst að slík viðhorf drepa félögin á skömmum tíma. En andstaðan gegn breytingum á starfi skólanna er víðar. Hana má finna hjá samtökum kennara sem of sjaldan taka jákvætt í tillögur að breytingum á skólastarfi enda telja þau jafnan að slíku fylgi aukin vinna og amstur. Andstaðan hefur einnig fundist hjá fráfarandi ráðherra sem hefur lagt sig fram um að drepa frumkvæði, framfarir og jákvæða samkeppni sem fylgir einkarekstri á framhaldsskólastigi.

Hvað er til ráða?

Ljóst er að nauðsynlegt er að auka fjölbreytni í skólakerfinu. Veita þarf einkaskólum möguleika á að starfa á jafnréttisgrundvelli í samkeppni við ríkisrekna framhaldsskóla. Einkaskólar hafa beinan hag af framförum og því að standa sig vel. Í þjóðfélögum þar sem slíkir skólar starfa samhliða skólum sem reknir eru af hinu opinbera er greinilegt að þeir leiða breytingar og framfarir og auka þar með eðlilega samkeppni í kerfinu öllu. Á meðan enginn hefur hag af samkeppni og framförum í skólakerfinu munu engar framfarir verða en stöðnun ríkja. Allir vita að með stöðnun drögumst við aftur úr í samkeppni þjóðanna að bættum lífskjörum. Samkeppnin og framfarirnar koma með einkaskólunum og þar með breytingar til batnaðar. Á grunnskólastiginu er ástandið litlu betra en á framhaldsskólastiginu. Þar eru fáir einkaskólar. Þó er greinilegt að með þeim einkaskólum sem fram hafa komið á síðustu árum hafa blásið ferskir vindar. Með þeim vindum hafa fylgt helstu framfarir sem hafa orðið á því skólastigi.

Til þess að tryggja skoðanafrelsi, framfarir og til að hvetja til aukinnar samkeppni á meðal skóla hafa þjóðir eins og Holland, Svíþjóð og fleiri þjóðir stuðst við ávísanakerfi í námi. Þótt aðferðirnar séu mismunandi felur kerfið það í sér að viss upphæð fylgir hverjum nemanda sem greiðsla frá ríki eða sveitarfélagi til skólans sem valinn er. Nemendur og aðstandendur velja skólann. Einkaskólar verða því að standa sig vel til að tryggja eftirspurn nemenda. Þeim er nauðsynlegt að skólastarfið sé vandað og stöðugt sé leitað nýrra leiða til að bæta það. Nú stöndum við Íslendingar á tímamótum. Við þurfum að leita allra þeirra leiða sem leitt geta af sér betri rekstur og framfarir. Útgjöld þjóðarinnar til menntamála eru mikil. Jafnvel smávægileg aukning afkasta og bættur rekstur skólanna skiptir því miklu máli. Til að ná sem bestum árangri eigum við að leita fyrirmynda hjá fremstu skólaþjóðum heims og auka hlut einkaskóla á öllum skólastigum.

Ólafur Haukur Johnson

höfundur er eigandi og skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar

 

 

Ótrúverðug loforð mennta- og menningarmálaráðherra!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Ótrúverðug loforð mennta- og menningarmálaráðherra!

Ótrúleg grein birtist í Fréttablaðinu 17. apríl eftir Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og formanns Vinstri grænna undir fyrirsögninni: „Vinstri - græn setja framtíð skólastarfs á oddinn.“

Þetta er ótrúverðug yfirlýsing eftir starf hennar á liðnu kjörtímabili. Vissulega er það rétt að eitt það mikilvægasta sem kosið verður um í komandi kosningum er framtíð skólastarfs í landinu. Það er hins vegar ótrúverðugt að eftir fjögur ár glataðra tækifæra, niðurrifs og stöðnunar hafi nú formaður Vinstri grænna loks áhuga á menntamálum og lofi að gera eitthvað á „næsta kjörtímabili“ er til framfara horfir. Lýsir það vanvirðingu við skólafólk og raunar landsmenn alla. Loforð Katrínar Jakobsdóttur nú hlýtur að kalla fram spurningu um af hverju hún hefur enga tilraun gert til að verja framhaldsskólana þessi ár og af hverju engin uppbygging hefur orðið? Tækifærin hafa verið víða og skólafólk tilbúið að gera mikið í málinu en ekkert frumkvæði hefur komið frá ráðherra. Því  verður kjörtímabilsins sem nú er að ljúka minnst sem ára hinna glötuðu tækifæra í málum framhaldsskólanna. Auðvitað hefur fjárhagsstaða ríkisins til að gera eitthvað fyrir skólana oft verið betri en hún var þetta kjörtímabil. Það þýðir þó ekki að stöðnun og aðgerðaleysi hafi átt að ráða för. Þvert á móti. Tækifæri til að taka á ýmsum vanda voru mörg. Halda vafalítið sumir að ég líti hér aðeins til framkomu hennar gagnvart Menntaskólanum Hraðbraut sem vissulega var afdrifarík og vond fyrir alla landsmenn. Svo er ekki. Ég er að horfa á framkomu hennar gagnvart starfi í framhaldsskólunum öllum. Nefni ég hér tvö dæmi:

1. Betur hefði átt að verja kjör framhaldsskólafólks. Kjör þeirra hafa dregist hratt aftur úr kjörum viðmiðunarstétta og er það fyrst og fremst vegna algers áhugaleysis ráðherra. Þar hafa tækifæri ótvírætt verið fyrir hendi. Taka hefði átt á samningum ríkisins við Kennarasamband Íslands. Þeir samningar eru fyrir löngu úreltir og eru dragbítur á starf skólanna. Raunar eru þeir ein helsta ástæða þess að kaup og kjör kennara hafa versnað og munu að óbreyttu halda áfram að versna. Fullyrði ég að ef ráðherra hefði tekið á því máli hefði mátt með tiltölulega litlu hugmyndaauðgi bæta kjör kennara um allt að 20% án aukakostnaðar fyrir ríkið. Ekki hefði þurft annað en að láta kennara og skólastjórnendur sjálfa leiða breytingar á skólastarfinu þá hefði þær örugglega tekist með ágætum.

2. Ekki aðeins hafa tækifæri til framfara liðið hjá án þess að hafa verið nýtt heldur hefur niðurrif verið stundað af ráðherra. Það að slá á frest að koma í gagnið nýrri almennri námskrá fyrir framhaldsskólana eins og búið var að samþykkja lýsir áhugaleysi, úrræðaleysi og getuleysi. Alls engin ástæða var til að fresta því máli enda hefur sú ákvörðun ekki verið studd nokkrum haldbærum rökum. Tækifærið var einstakt enda er algerlega nauðsynlegt að gera lengd náms í íslenskum skólum hliðstæða því sem er í öðrum löndum. Það bruðl sem felst í því að gera það ekki er með öllu óásættanlegt fyrir íslensk ungmenni og reyndar þjóðina alla.

Fleiri mál má nefna sem hefðu getað leitt framfarir í starfi framhaldsskólanna á þessu kjörtímabili en ég læt hér staðar numið í bili.

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar

 

Gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár!

Menntaskólinn Hraðbraut og eigendur hans óska öllum fyrrverandi nemendum og starfsmönnum skólans gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs.

Jafnframt þökkum við ykkur og öllum þeim öðrum sem hafa sent skólanum stuðningskveðjur og góðar óskir í baráttunni við stjórnvöld á liðnum árum.

Senn líður að því að kosnir verða nýir fulltrúar til að taka við stjórn landsins. Það verður í síðasta lagi í apríl n.k. Bindum við vonir við að þá veljist til starfa fyrir þjóðina einstaklingar sem hafa kjark til að semja við hagkvæmasta framhaldsskóla landsins, Menntaskólann Hraðbraut. Fyrir Íslendinga er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að rekstur framhaldsskólanna verði sem hagkvæmastur og að framfarahugur fái að leiða allt starf skólanna.

Menntaskólinn Hraðbraut,

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

Útskrift 7. júlí 2012

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Frá Ólafi Hauki Johnson skólastjóra:

Útskrift var hjá Menntaskólanum Hraðbraut í dag, 7. júlí. Útskriftin fór fram í Bústaðakirkju.

Að venju kom ég víða við í útskriftarræðu minni. Venjulega fjalla ég ekki um stöðu skólans heldur eingöngu um stöðu nýstúdentanna. Vegna stöðu skólans nú var ekki hjá því komist að fjalla um þau mál enda aðstæður allar afar óvenjulegar. Sagði ég m.a.:

„Stúdentahópurinn nú er sá smæsti frá upphafi. Kemur það til vegna þeirrar ódreng­ilega atlögu sem gerð hefur verið að skólanum og starfi hans öllu. Á á því er enginn vafi. Ekki hefur því framtíð skólans ein verið sköðuð. Líf um 30 nemenda í þessum árgangi; nem­enda sem nú hefðu útskrifast sem stúdentar ef aðstæður hefðu verið eðlilegar, hefur hreinlega verið lagt í rúst. Þar ofan á bætist að líf og framtíðar­möguleikar þeirra nemenda sem stunduðu nám á fyrra ári í skólanum hafa verið skaðaðir verulega. Ef ekki hefði komið til atlaga ráðherra að skólanum værum við að útskrifa 70 stúdenta hér í dag í stað 41 og á milli námsára í skólanum væri að flytjast stór og öflugur hópur. Án þess að víkjast sjálfur undan ábyrgð á stöðu þessa fólks og skólans vil ég segja að ábyrgð og framkoma ráðherra í málinu öllu er henni til minnk­unar með hætti sem seint mun gleymast. Við skólaslitin nú tekur við tímabil óvissu enda verður ekkert skóla­starf í skólanum næsta vetur. Áfram verður þó bar­ist fyrir tilvist hans og því að hann fái í fram­tíðinni að njóta jafnræðis við ríkis­reknu framhalds­skól­ana.

Með stofnun Menntaskólans Hraðbrautar var brotið blað í sögu íslenskra framhaldsskóla. Skólinn var sá fyrsti sem bauð nám til stúdentsprófs á aðeins tveimur árum. Síðustu ár hafa aðrir framhaldsskólar hamast við að bjóða valkosti sem stytta nám til stúdentsprófs. Nú er svo komið að aðeins er spurning um nokkur ár þar til allar námsbrautir til stúd­ents­prófs á Íslandi verða þriggja ára brautir eða styttri. Ávinningurinn sem af styttingu náms í framhaldsskóla leiðir verður mjög mikill eins öllum má ljóst vera. Ávinningurinn er þjóðar­innar allrar, en þó fyrst og fremst námsfólksins.

En það voru fleiri nýjungar sem fylgdu komu Hrað­brautar. Lotukerfið sem mótar starf skólans er einstakt og hefur gefist vel. Nemendur og starfsmenn eru mjög ánægðir með það. Enginn annar skóli býður nám eftir hliðstæðu kerfi en margir reyna nú að líkja eftir. Reyndar er ég þess fullviss að almennt skólastarf á fram­halds­skólastigi muni á næstu árum færast yfir í lotur hlið­stæðar þeim sem byggt er á í Hraðbraut.

Skólinn hefur náð góðum árangri og metnaður nemenda og starfsmanna er mikill. Fram hefur komið í könnun á meðal grunnnema í HÍ að 82,4% þeirra nemenda sem komu úr Hraðbraut voru mjög ánægðir með undir­búninginn sem þeir fengu í framhaldsskóla. Aðeins meðal stúdenta sem komu úr MR, MA, MH og Verzló var hlutfallið jafn hátt. Án þess að leggja mat á starf annarra framhaldsskóla tel ég þetta staðfesta að Menntaskólinn Hraðbraut hefur náð góðum árangri og sé í hópi metnaðarfyllstu framhaldsskóla landsins.

Í tilraunum mínum við að framlengja líf skólans í aðförinni gegn honum bauð ég ráðherra bókstaflega allt sem hugsanlegt var að bjóða nema að gefa henni skólann. Ég hef metið það svo, að það að gefa ríkinu skólann væri eina algerlega örugga leiðin sem tryggði að rekstrargrundvellinum yrði kippt undan honum til framtíðar. Þrátt fyrir góð boð mín til ráðherra hefur allt komið fyrir ekki. Hún hefur verið með öllu ófáanleg til að gera nýjan þjónustusamning við skólann. Staðan er því núna sú að skólastarf verður ekkert Hraðbraut næsta vetur.

Að því er varðar framtíð skólans eru tveir kostir í stöðunni. Annar er sá að leggja skólann af og gefa eða selja eigur hans. Það tel ég óraunhæfan kost með öllu, til þess er allt of mikið í húfi. Hinn kosturinn er sá að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Teljum við það nú vera skásta kostinn í stöð­unni, ekki aðeins fyrir skólann sjálfan heldur ekki síður fyrir ríkið og þann mikla fjölda sem hefur áhuga á þeirri námsleið sem skólinn býður. Því höfum við ákveði að bíða fram yfir kosningar, sem verða næsta vor í síðasta lagi, í þeirri von að við fáum þá nýjan kjarkmikinn og víðsýnan menntamálaráð­herra.“

Eins og fram kom hér að framan mun ég ekki leggja árar í bát. Unnið verður að því að tryggja framtíð skólans.

Síðan sagði ég:

„Stafsfólki skólans öllu þakka ég ánægjulegt sam­starf og afar farsælt starf við krefj­andi verkefni í vetur. Ef ekki væri fyrir ykkar elju værum við ekki hér saman komin í dag til að út­skrifa þennan glæsilega hóp stúdenta. Ég þakka ekki einungis þeim starfsmönnum sem hér eru með okkur í dag; í þann hóp vantar marga sem ég vil einnig þakka. Starfsmönnum skólans hefur gengið vel að fá störf og fyrir það erum við eigendur skólans þakklátir. Allir sem starfað hafa í föstu starfi hjá skólanum hafa fengið nýtt starf og því eru flestir horfnir á braut sem óneitanlega er léttir úr því sem komið er. Nógu þungbær er okkur staða skólans þótt ekki bætist þar við áhyggjur af framtíð þess góða fólks sem ljáð hefur skólanum krafta sína með óeigingjörnum hætti undafarin ár.

Þegar á móti hefur blásið eins og gert hefur í starfi skólans er mikilvægt að eiga góða að. Þar hef ég átt ótrúlega trausta bakhjarla sem hafa stutt skólann og mig í hverju spori. Ég þakka stjórn skólans fyrir frábært starf. Að öðrum stjórnarmönnum ólöstuðum hefur verið ein­stakur styrkur í formanni stjórn­arinnar, Pétri Birni Péturssyni, sem hefur unnið mikið og einstakt starf fyrir skólann á undanförnum árum.

Einnig hefur fjölskylda mín öll stutt vel við skólann og bak mitt. Sérstaklega vil ég þar nefna börnin mín og konuna mína. Þakka ég þeim frábæran stuðning sem hefur verið algerlega ómetanlegur. Ég hef sagt það hér oft áður að þrátt fyrir að konan mín sé ekki alltaf áberandi innan skólans þá eru þær ekki margar stóru ákvarðanirnar sem teknar eru við stjórn hans án sam­ráðs við hana.“

Og að lokum:

„Ég bið þess að Guð og gæfa fylgi okkur öllum í framtíðinni. Látið drengskap og heilindi verða vega­nesti ykkar og munið að þeir sigrar sem þannig eru unnir eru einu sigrarnir sem máli skipta og spor mörkuð með heiðarlegu og drengilegu lífstarfi eru einu sporin sem ekki fennir í að leik loknum. Innilega til hamingju með stúd­entsprófið!

Ég segi hér með Menntaskólanum Hraðbraut slitið ... að sinni!“

Viðurkenningu fyrir námsárangur hlutu: Sheni Nicole Buot Navarro fyrir hæstu meðaleinkunn á málabraut 8,72 og Gadidjah Margrét Ögmundsdóttir fyrir hæstu einkunn af náttúru­fræði­braut 9,07. Hún er jafnframt dúx skólans.

 

 

Útskrift stúdenta 2012

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Útskrift stúdenta 2012

Útskrift stúdenta frá Mennta­skólanum Hrað­braut verður laugardaginn 7. júlí 2012, kl: 10:30 í Bústaðakirkju. Mæting stúdentsefna er kl. 9.45 í kirkjuna.

Athöfninni verður lokið um kl. 12.00.


Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 

 

Áríðandi tilkynning!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

 

Tilkynning frá Ólafi Hauki Johnson,

skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar,

6. júní 2012


Skólastarf í Hraðbraut leggst af

Við blasir að starfsemi Menntaskólans Hraðbrautar verður hætt nú að skólaárinu loknu, í bili að minnsta kosti. Reynt verður að aðstoða nemendur á fyrra námsári til að tryggja þeim skólavist annars staðar eins farsællega og kostur er. Sama á við um kennara og aðra starfsmenn Hrað­brautar sem margir hafa leitað á aðrar slóðir, með góðum árangri í flestum tilvikum.

Ljóst er að þegar skólanum var synjað um nýjan þjónustusamning var um aðför stjórnvalda að einkarekstri að ræða. Sú aðför hefur heppnast vel. Tjónið sem af þessu hlýst hjá nemendum, starfsmönnum og eigendum er þungbært. Síðast en ekki síst er tjón þjóðfélagsins mikið.

Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar lýsa því ekki yfir að skólanum verði lokað heldur að reksturinn leggist af um sinn. Eigendur skólans munu áfram reyna að ná samkomulagi við yfirvöld um rekstur skólans til frambúðar. Ljóst er að skólinn hefur sýnt að hann gegnir mikilvægu hlutverki. Því  er mikilvægt  að tryggja varanlega framtíð hans.


Staðreyndir í fáum orðum

1. Menntaskólinn Hraðbraut hefur starfað farsællega síðan 2003 og útskrifað um 400 stúdenta.

2. Menntaskólinn Hraðbraut útskrifar stúdenta á tveimur árum en meðalnámstími til stúdentsprófs í framhaldsskóla á Íslandi er hins vegar 5,5 ár.

3. Faglegt starf skólans hefur gengið ákaflega vel. Háskólanemar af Hrað­braut telja að námslegur undirbúningur þeirra hafi verið mjög góður.

4. Í ljósi þess að stúdentar frá Menntaskólanum Hraðbraut eru mun skemmri tíma í fram­halds­skóla en stúdentar annarra skóla lengist starfs­ævi þeirra. Þeir greiða skatta og skyld­ur til ríkisins mun lengur en aðrir og því skal fullyrt að enginn framhaldsskóli nálgast Hraðbraut hvað varðar þjóðhagslega hagkvæmni starfseminnar.

5. Greiðslur ríkisins vegna nemenda Hraðbrautar eru hliðstæðar því lægsta sem þekkist í skólum ríkisins.

6. Á árinu 2010 voru heildarlaun kennara í Hraðbraut um 20% hærri en laun kennara í skólum ríkisins.

7. Menntamálaráðherra bar fyrir sig skýrslu Ríkisendurskoðunar þegar látið var upp­haflega til skarar skríða gegn Hraðbraut. Ríkisendurskoðun gagnrýndi vissulega tiltekna þætti í rekstri Menntaskólans Hraðbrautar í úttekt sinni en vinnuaðferðir sjálfs mennta- og menningarmála­ráðuneyt­isins sættu þar samt mun meiri og alvarlegri gagnrýni. Ráðuneyt­ið kaus hins vegar að hafa úttektina að skálkaskjóli þegar það ákvað að hætta að kaupa þjónustu skólans og leggja þar með niður starfsstöð 200 nemenda og 20 starfsmanna.

8. Ríkisendurskoðandi, forystumenn allsherjar- og menntamálanefndar og fjölmargir þingmenn eru hlynntir því að gerður verði nýr þjónustusamningur við Menntaskólann Hraðbraut.

9. Menntaskólinn Hraðbraut hefur boðist til að veita ríkinu afslátt af hverju nemendaígildi í skólanum til að ríkið/skattgreiðendur nytu þess að hann er einn hagkvæmasti skóli landsins. Enginn áhugi var á tilboði skólans. Í slíkum viðbrögðum birtast býsna sérstök viðhorf til meðferðar og ráðstöf­unar opinberra fjármuna.

10. Rekstur Hraðbrautar hefur gengið vel og skólinn er skuldlaus. Allir reikn­ingar skólans hafa frá upphafi verið greiddir á réttum tíma. Því til viðbótar hafa eigendur skólans gengið í persónulega fjárhagsábyrgð fyrir rekstri skólans.

Frekari upplýsingar veitir Ólafur Haukur Johnson í síma 565-9500 og 822-0051.

 

 

Innritun fyrir haustönn 2012

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

 

Innritun fyrir haustönn 2012

Innritun fyrir haustönn 2012 stendur til 8. júní nk. Nemendur sem vilja sækja um skólavist í Menntaskólanum Hraðbraut næsta vetur eiga að sækja um hér á heimasíðunni. Ekki er hægt að sækja um í gegnum www.menntagatt.is. Umsókn í Menntaskólann Hraðbraut hefur ekki áhrif á umsóknir í aðra skóla. Nemendur geta því sótt um skólavist hér og sótt um skólavist í tveimur skólum í gegnum www.menntagatt.is.

Stjórnendur Menntaskólans Hraðbrautar vilja taka fram að á þessu stigi er ekki víst að skólinn muni starfa næsta vetur. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, hefur skólinn ekki náð samningum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um fjárstuðning næsta skólaár. Staða þeirra mála mun þó skýrast áður en umsóknarfrestur rennur út þann 8. júní nk.

 

 

 

Málfundur fellur niður!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Líkt og fyrr virti hún, Katrín Jakobsdóttir ráðherra, ekki skólann, nemendur, starfsmenn og stjórnendur svars við neðangreindri áskorun. Málfundur með ráðherra fellur því niður.

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri

 

 

 

Skorað á ráðherra!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Á mánudag sendi ég Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra neðangreinda áskorun. Svar hefur ekki borist en víst er að málfundurinn, sem ráðherra vonandi fellst á að mæta til, verður áhugaverður fyrir þá sem eru áhugasamir um stöðu Hraðbrautar og þróun framhaldsskólanna.


Áskorun!

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Ítrekaðar tilraunir til að ná fundi með þér persónulega um framtíð skólans hafa engan árangur borið. Þar sem alls engin haldbær skýring hefur fengist á synjun ráðuneytisins um að gera nýjan þjónustusamning við skólann skora ég á þig til opins málfundar um málið.

Fundarstaður: Menntaskólinn Hraðbraut.

Fundartími: Fimmtudagur, 15. mars nk. kl. 20.00.

Henti ofangreindur fundartími þér ekki hvet ég þig til að nefna stund sem þér hentar.


Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri

 

 

Innritun fyrir haustönn 2012

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Innritun fyrir haustönn 2012

Innritun er hafin fyrir haustönn 2012 og stendur til 8. júní nk. Nemendur sem vilja sækja um skólavist í Menntaskólanum Hraðbraut næsta vetur eiga að sækja um hér á heimasíðunni. Ekki er hægt að sækja um í gegnum www.menntagatt.is. Umsókn í Menntaskólann Hraðbraut hefur ekki áhrif á umsóknir í aðra skóla. Nemendur geta því sótt um skólavist hér og sótt um skólavist í tveimur skólum í gegnum www.menntagatt.is.

Stjórnendur Menntaskólans Hraðbrautar vilja taka fram að á þessu stigi er ekki víst að skólinn muni starfa næsta vetur. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, hefur skólinn ekki náð samningum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um fjárstuðning næsta skólaár. Staða þeirra mála mun þó skýrast áður en umsóknarfrestur rennur út þann 8. júní nk.

 

 

 

Opið hús!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Opið hús!

Opið hús verður í Menntaskólanum Hraðbraut fimmtudaginn 15. mars nk., kl. 16.00 – 18.00.

Allir sem vilja kynna sér starf skólans eru hjartanlega velkomnir.

 

 

Heiðurslisti Hraðbrautar 2011-2012

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Heiðurslisti Hraðbrautar hefur verið valinn veturinn 2011-2012.

Heiðurslisti nemenda Menntaskólans Hraðbrautar er stofnaður í ljósi þess metnaðar­fulla viðhorfs sem skólinn starfar eftir og í viðleitni til að þjóna afburðanemendum vel. Skólinn vill senda skýr skilaboð um að vel sé tekið eftir nemendum sem sýna framúr­skarandi árangur. Listinn á að vera skólanum og nemendum sem á hann veljast til framdráttar. Valið er á listann fyrst og fremst eftir náms­árangri og með hliðsjón af ástundun, samviskusemi og almennu viðhorfi til námsins. Einnig geta valist á listann nemendur sem hafa unnið einstakt og eftirbreytnivert starf fyrir skólann og samnemendur. Skóla­stjórn velur nemendur á listann. Nemendum sem veljast á listann er veitt 25% endurgreiðsla af skólagjöldum skóla­ársins.

Heiðurslisti Hraðbrautar 2011-2012

Myndin sýnir nemendur heiðurslistans að þessu sinni, en þeir eru frá vinstri: Kolbeinn Þrastarson,  Alexandra Líf Ívarsdóttir, Gadidjah Margrét Ögmundsdóttir, Inga Bára Guðbjartsdóttir, og Sheni Nicole Buot Navarro.

Alexandra Líf Ívarsdóttir tekur við viðurkenningu

Myndin sýnir Ólaf Hauk Johnson skólastjóra afhenda Alexöndru Líf Ívarsdóttur viðurkenninguna. Alexandra Líf er sú yngsta í fjögurra systkina hópi sem öll hafa valið að koma í Menntaskólann Hraðbraut.

 

Gleðileg jól!

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Gleðileg jól!

Menntaskólinn Hraðbraut óskar nemendum, starfsmönnum og velunnurum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.

Jafnframt minnum við á að skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 4. janúar 2012.

 

 

Aðalfundur foreldraráðs

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

 

Aðalfundur foreldrafélags nemenda við Menntaskólann Hraðbraut verður haldinn miðvikudaginn 19. október 2011 kl 17. 30 í húsnæði skólans.

Dagskrá fundarins: Venjuleg aðalfundarstörf.

Allir foreldrar nemenda eru hvattir til að mæta.

Elín Hanna Jónsdóttir
formaður.

 

 


Síða 1 af 4