Ágætu stuðningsmenn Menntaskólans Hraðbrautar

Miðvikudagur, 03. september 2014 22:16
Prentvæn útgáfa

Ágætu stuðningsmenn Menntaskólans Hraðbrautar.

Þetta er síðustu skilaboðin sem ég skrifa á heimasíðu Menntaskólans Hraðbrautar í bili. Mun ég eftirleiðis halda mig við mína persónulegu Facebooksíðu. Þeir sem vilja fylgjast með geta litið þar við.

Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir um hvort skólinn sé endanlega hættur. Stundum er þetta frá fólki sem vill kaupa eigur skólans á eðlilegu verði en stundum vill fólk aðeins gera gera „góð kaup á brunaútsölunni“ eða jafnvel fá eigur hans gefnar. Til að eyða því máli vil ég segja hér að ég hef ákveðið að bíða með brunaútsöluna.

Hinir sem spyrja um skólann eru þeirrar skoðunar hann hafi verið mikilvæg nýjung og nauðsynlegur valkostur í framhaldsskólaflórunni. Hvetja þeir mig til að gefast alls ekki upp. Ég eigi enn að leita leiða til að ná nýjum þjónustusamningi við ríkið enda haldi þau rök ekki vatni sem ráðherra hefur gefið fyrir því að gera ekki nýjan samning við skólann. Ráðherra hefur sagt að ekki sé til peningur til að gera samning við skólann vegna þess að þann pening þurfi að taka frá öðrum skólum. Það er ekki rétt.

Það vita þeir sem þekkja til reksturs framhaldsskóla á Íslandi að ríkið greiðir skólum fyrir kennslu þeirra nemenda sem þar stunda nám og þreyta próf. Ekki er greitt með öðrum. Það merkir auðvitað að með þeim nemendum sem stunduðu nám í Hraðbraut var ekki greitt annars staðar..... hvergi! Allt tal um að ekki séu til peningar til að bjóða valkost eins og Hraðbraut var lýsir annað hvort vanþekkingu á því hvernig kerfið virkar eða er vísvitandi útúrsnúningur. Greiðslur til Hraðbrautar vegna hvers stúdents voru þær lægstu sem þekkjast. Enginn skóli á landinu útskrifaði stúdenta fyrir jafn lága upphæð. Að auki bendum við á að ævitekjur stúdenta Hraðbrautar eru, vegna lengri starfsævi að námi loknu, 5% hærri en stúdenta annarra skóla. Skatttekjur ríkisins vegna þessara auknu ævitekna nema mun hærri upphæð en ríkið greiddi vegna náms þeirra. Ríkið hefur því beinan fjárhagslegan ávinning af því að sem flestir stundi nám í skóla eins og Hraðbraut. En það er ekki bara ríkið sem hefur af því ávinning, ávinningur nemendanna er enn meiri.

Að síðustu minni ég það augljósa sem virðist alveg gleymt: Skólakerfið er til fyrir nemendur þessa lands, ekki kennara, ekki starfsmenn ráðuneytisins og ekki fyrir ráðherra né stjórnmálaflokka. Þarfir nemenda eiga að ráða ferðinni, ekki annarra. Að gefa nemendum ekki þann möguleika að ljúka framhaldsskóla á skemmsta tímanum, tveimur árum eins og Hraðbraut bauð, er vanvirðing við þá sem skólakerfið á að þjóna.

Ólafur Haukur Johnson skólastjóri