Opið bréf til Illuga Gunnarssonar ráðherra

Föstudagur, 27. mars 2015 11:38
Prentvæn útgáfa

25. mars 2015

Hr. Illugi Gunnarsson ráðherra

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Sölvhólsgötu 4

125 REYKJAVÍK

Er Hraðbraut hagkvæmur skóli?

Opið bréf til Illuga Gunnarssonar

Sæll Illugi.

Í lok síðasta árs óskaði ég eftir viðræðum við ráðuneytið um nýjan þjónustusamning fyrir Menntaskólann Hraðbraut. Til fundar um málið var boðað 11. febrúar sl. Viðræður voru jákvæðar og fjallað m.a. um gott starf skólans á meðan hann starfaði. Þú sagðir hress í lok fundar­ins að þú mundir taka afstöðu til „beiðni Hraðbrautar um nýjan þjónustusamning á grundvelli fjár­hagslegrar hagkvæmni fyrir ríkið.“ Gladdist ég við að ákvörðunin ætti að byggjast á grunni sem mér fannst málefnalegur. Gekk ég af fundi algerlega sannfærður um að málið væri loks í höfn enda er Menntaskólinn Hraðbraut fjárhagslega hagkvæmasti framhaldsskóli landsins fyrir ríkið samkvæmt mínum útreikningum.

Nú hef ég fengið synjun um nýjan þjónustusamning án þess að útreikningar á „fjár­hagslegrar hagkvæmni“ væru látnir fylgja með. Þótt að ég sé mjög undrandi á að hægt hafi verið að komast að þessari niðurstöðu vænti ég ekki annars en að þú hafir staðið við loforð þitt um að niðurstaða máls þessa yrði byggð á útreikningum á fjár­hagslegri hagkvæmni.

Hér að neðan er útreikningur minn á hagkvæmni Hraðbrautar fyrir ríkið og þau ungmenni sem velja skólann. Set ég útreikninginn fram í formi dæmis um nám ungmennanna Jóns og Gunnu. Þau eru í dag 25 ára. Fyrir 9 árum völdu þau sér framhaldsskóla. Jón ákvað að fara í MR (4 ár) en Gunna ákvað að fara í Hraðbraut (2 ár). Þau luku bæði stúdentsprófi og fóru síðan í fimm ára nám í verkfræði í Háskóla Íslands. Gunna lauk meistaraprófi í verk­fræði vorið 2013 en Jón mun ljúka sama prófi í vor, tveimur árum á eftir Gunnu. Reikningsdæmið lítur þá svona út fyrir ríkið (sleppt er að fara yfir kostnað við háskólanám Jóns og Gunnu þar sem sá liður er eins hjá þeim báðum og hefur því ekki áhrif hér):

1. Kostnaður ríkisins af framhaldsskólanámi Jóns og tekjur ríkisins af Jóni þessi 7 ár síðan hann lauk grunnskóla:

a. Stúdentspróf Jóns var tekið á fjórum árum frá MR sem var á þessum tíma næst ódýrasti framhalds­skóli landsins. Prófið kostaði ríkið kr. 3.209.600.

b. Þar sem Jón hefur verið í fullu námi síðan hann lauk grunnskóla hefur hann ekki haft nægar tekjur til að skila ríkissjóði tekjuskatti þennan tíma.

2. Kostnaður ríkisins af framhaldsskólanámi Gunnu og tekjur ríkisins af Gunnu þessi 7 ár síðan hún lauk grunn­skóla:

a. Stúdentspróf Gunnu var tekið á tveimur árum frá Hraðbraut sem var á þessum tíma ódýrasti framhaldsskóli landsins. Prófið kostaði ríkið kr. 3.118.100 eða 2,85% lægri upphæð en í MR.

b. Gunna lauk námi sínu í verkfræði vorið 2013. Hún fékk vinnu á verkfræðistofu og hefur verið í fullu starfi síðan. Laun hennar hafa verið prýðileg þennan tíma eða kr. 500.000 á mánuði. Heildar­tekjur hennar þennan tíma, sem Jón verður lengur í námi en hún, eru því kr. 500.000 * 24 mánuðir = kr. 12.000.000. Tekjuskattsgreiðslur Gunnu (fyrir utan aðra skatta) til ríkisins síðustu tvö ár nema því kr. 216.952 á mánuði * 24 mánuðir = kr. 5.208.848. Það er kr. 2.088.748 hærri upphæð en ríkið greiddi Hraðbraut fyrir nám Gunnu. Enginn annar skóli í landinu getur bent á slíka hagkvæmni enda, jafn ótrúlegt og þér kann að finnast það, þá sýna útreikningar mínir að tekjur ríkisins muni vaxa við að gera þjónustu­samning við Hraðbraut!

c. Ljóst er að ævitekjur Gunnu, vegna styttri námstíma, verða um 5% hærri en ævitekjur Jóns. Hagsmunir Gunnu af styttri námstíma eru því einnig miklir.

Eins og fram var komið hefur þú neitað Hraðbraut um nýjan þjónustusamning. Það hefur væntanlega verið gert „á grundvelli fjárhagslegrar  hagkvæmni fyrir ríkið“ eins og þú lofaðir á fundi okkar. Sjálfur tel ég þetta vera stórmál fyrir ríkissjóð og æsku landsins. Einnig er þetta stórmál fyrir eigendur Menntaskólans Hrað­brautar sem beðið hafa eftir nýjum þjónustusamningi með hundruða milljóna fjárfestingu frá árinu 2012.

Með loforð þitt og ofangreinda hagsmuni í huga tel ég fullvíst að að baki ákvörðun þinni liggi vandaðir útreikningar. Óska ég hér með eftir að fá að sjá þá.

Virðingarfyllst,

Menntaskólinn Hraðbraut

Ólafur Haukur Johnson

skólastjóri