Kæru nemendur, aðstandendur og starfsfólk.
Í frétt í DV í gær er fullyrt að skólanum verði lokað. Það er ekki rétt. Viðræður eru í gangi við menntamálaráðuneytið um framtíð skólans, en engar ákvarðanir hafa verið teknar. Öllum má þó vera ljóst að að skólanum er nú gerð hörð aðför enda samræmist einkarekstur skóla ekki viðhorfum sumra. Gildir þá einu þótt skólastarfið sé mjög farsælt og um sé að ræða þjóðhagslega hagkvæmasta framhaldsskóla landsins.
Fullyrt er í grein blaðsins „að opinberir aðilar, Ríkisendurskoðun og menntamálanefnd, hafa staðfest upplýsingar um óráðsíu í fjármálum skólans.“ Um þetta er ekki annað að segja en að sjaldan hafa önnur eins ósannindi birst á prenti, jafnvel þegar DV á í hlut. Fjármál skólans eru í stakasta lagi og rekstrarhorfur góðar.
Það sem helst hefur verið fundið að rekstri skólans í úttekt Ríkisendurskoðunar og í skýrslu menntamálnefndar er að skólinn hafi tekið við umframgreiðslum frá ríkinu og eigendur skólans tekið út arð. Vegna þessa vil ég koma eftirfarandi á framfæri:
1. Varðandi umframgreiðslurnar er það að segja að skólinn óskaði ítrekað eftir því að eðlilegt uppgjör á greiðslum færi fram en við því var ekki orðið. Því fór sem fór. Auðvitað hefði menntamálaráðneytið, sem hafði allar nauðsynlegar upplýsingar um málið, átt að tryggja að uppgjörið færi fram enda er það venja þegar gerður hefur verið samningur að sá sem telur á sig hallað hafi frumkvæði í þessum efnum, ekki síst þegar sá aðili einn bjó yfir nauðsynlegum upplýsingum um málið.
2. Annað sem skiptir máli varðandi umframgreiðslur ráðuneytisins til skólans er að þær hafa nú þegar, að mati skólans, verið greiddar til baka enda eru í skólanum mun fleiri nemendur en skólinn fær greitt fyrir. Ráðuneytið er þó á þeirrar skoðunar að full endurgreiðsla komi ekki fyrr en á næsta ári. Gildir einu hvort skólinn eða ráðuneytið hefur á réttu að standa í þessum efnum enda er það venja að framhaldsskólar jafni ofgreiðslur og /eða vangreiðslur til sín með þeim hætti að stilla nemendafjölda og greiðslur þannig saman að þetta sé nokkurn veginn jafnt þegar til lengri tíma er litið.
3. Varðandi arðgreiðslurnar þá er það að segja þær hafa á rúmlega 7 ára starfstíma skólans numið kr. 82 milljónum eða tæpum 12 milljónum á ári að jafnaði. Ef þessu er jafnað á þá tvo eigendur sem lengst af áttu skólann saman, Nýsi hf. og undirritaðan, þá eru þetta kr. 6 milljónir á ári til hvors eiganda. Undirbúningsvinna undirritaðs stóð í 8 ár áður en skólinn hóf störf, auk þess sem töluverð fjárútlát fylgdu stofnun skólans. Arðgreiðslum skólans hefur verið ætlað að umbuna fyrir þetta.
Ljóst er þó að hart verður þó tekist á um framtíð skólans á næstu vikum og mánuðum. Þá er mikilvægt að allir þeir sem vilja leggja skólanum lið láti í sér heyra enda vinna nú jólasveinar úti í bæ hörðum höndum við að blogga frá sér allt vit um málið til þess eins að skaða skólann og aðstandendur sem mest.
Skólinn mun senda frá sér yfirlýsingu eftir jól.
Að síðustu vil ég segja að mér finnst ákaflega leiðinlegt hvernig umræðan um skólann hefur þróast síðustu mánuði. Allt annað og betra eigið þið skilið.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs,
Ólafur Haukur Johnson
skólastjóri